Hörður Bjarnason

Hörður Bjarnason, vega- og umferðarverkfræðingur M.Sc.
Faghópur: Samgöngur

„Það er margt sem liggur að baki hverri einustu götu, stíg eða brú og þú þarft ekki að gera annað en að líta út um gluggann þá sérðu eitthvað sem samgönguverkfræðingur hefur unnið að,“ útskýrir Hörður, sem hefur lengi verið viðloðinn fyrirtækið en hann hóf störf í lok árs 2005 sem gerir 18 ár í starfi. 

Verkefni samgöngusviðs eru afar víðfeðm og ná allt frá skipulagsmálum á frumstigi að lokahönnun gatna og stíga. „Það væri ekki hægt að keyra eða hjóla um götur og stíga nema fyrir þá vinnu sem fer fram á bak við tjöldin. Það hafa í rauninni allir áhuga og skoðun á þessari atvinnugrein en kannski færri sem átta sig á vinnunni sem liggur að baki. Á sama tíma skiptir miklu máli að halda sér á tánum í starfi sem þessu, kynna sér nýjustu staðla og fylgjast með því sem er að gerast í nágrannalöndunum,“ bætir hann við.

Hörður starfar á sviði samgangna en hann útskrifaðist með masterspróf úr vega- og umferðarverkfræði frá háskólanum í Lundi í Svíþjóð. Hann á ekki langt að sækja verkfræðiáhugann en faðir hans starfaði lengi í faginu. „Það lá einhvern veginn beinast við að ég færi í verkfræði eftir að ég útskrifaðist af eðlisfræðibraut frá Menntaskólanum í Reykjavík,“ segir Hörður, fjögurra barna faðir og golfari í mótun.

Stór verkefni sem snerta alla borgarbúa

Hörður segir verkefnin sem hann vinnur að dagsdaglega vera afar fjölbreytt og af öllum stærðargráðum.

Undanfarin ár hef ég sérhæft mig í umferðaröryggi og sinnt umferðaröryggisrýni fyrir Vegagerðina og Reykjavíkurborg. Í slíkum verkefnum þarf að ganga úr skugga um að hönnunin sé samkvæmt stöðlum og veghönnunarreglum, að hún sé örugg og gerð með tilliti til allra ferðamáta með sérstakri áherslu á aðgengi fyrir alla.

Þá hefur Hörður einnig verið að verkefnastýra stærri verkefnum á höfuðborgarsvæðinu. „Við höfum nýlega lokið við verkefni á Bústaðaveginum við Reykjanesbraut þar sem við komum að gatna-, stíga- og brúarhönnun ásamt allri lagnahönnun. Þetta var mjög stórt og tæknilega flókið verkefni, aðallega með tilliti til lagnahönnunar en það má segja að þetta hafi verið suðupottur af öllum stærstu lögnum á höfuðborgarsvæðinu.“ 

Spurður út í verkefni sem stendur upp úr nefnir hann hönnun bílakjallarans við Hörpu. „Við þurftum að ígrunda vandlega hvernig bílakjallarinn ætti að líta út og virka og hvernig væri best að tæma hann eftir stóra viðburði. Þá skoðuðum við umferðarflæði inni í kjallaranum og samhliða því þurftum við að gæta þess að ljósastýringar á yfirborði störfuðu eðlilega með tæmingunni, en við fórum meðal annars út til Danmerkur til að skoða bílakjallara þar.“ 

Starf sem getur bjargað mannslífum

„Það sem er líklega mest gefandi í mínu starfi er að vita að við séum að forða slysum og mögulega bjarga mannslífum. Það er virkilega gott að vinna hjá fyrirtækinu og ekki að ástæðulausu að ég hef unnið hér í rúm 18 ár. Starfið er spennandi og ég hef komið að ótal verkefnum með fjölbreyttum hópi viðskiptavina. Á sama tíma er fyrirtækið fjölskylduvænt með sveigjanlegum vinnutíma, hér er frábært félagslíf og ekki síst skemmtilegir og faglegir vinnufélagar sem hafa reynst mér vel í gegnum árin.“ 

Nú með sameiningu við COWI þá mun tenglanetið stækka enn meira og við getum nýtt reynslu og þekkingu hvors annars sem býður upp á fjölbreytt tækifæri. „Við komum til með að hagnast mikið á því að leita í verkefnabanka og reynslu starfsmanna hjá COWI og það munu líklega bætast við enn fleiri skemmtileg og krefjandi verkefni,“ segir Hörður að lokum.