Jónína de la Rosa

Jónína de la Rosa, arkitekt og lýsingarhönnuður 
Faghópur: Rafkerfi 

„Þegar ég byrjaði að starfa innan verkfræðigeirans þá fékk ég allt aðra sýn á fagið,“ útskýrir Jónína sem er arkitekt og lýsingarhönnuður að mennt og hefur unnið við það síðarnefnda frá árinu 2015. 

Hún hóf störf hjá fyrirtækinu fyrir um tveimur árum og starfar í dag sem lýsingarhönnuður á rafmagnssviði. „Ég er mjög nokkuð fjölbreyttan bakgrunn, má þar nefna myndlist, ljósmyndun, lýsingarhönnun og arkitektúr,“ segir Jónína sem hefur næmt auga fyrir hönnun og skapandi hliðum verkfræðinnar. 

Að fá rými til þess að þróast í starfi

Jónína lauk nýverið meistaranámi í Light and Lighting frá University College of London. „Eftir nokkur ár í faginu vildi ég auka við þekkingu mína á þessu sviði. Ég hef alltaf haft gott hönnunarauga en að sama skapi er starfið mjög tæknilegt sem mig vantaði betri grunn í. Ég hef alltaf fundið fyrir miklum stuðningi frá samstarfsfólki og yfirmönnum. Það er gott að fá svigrúm til þess að þróast í starfi og fá tækifæri á að viða að sér meiri þekkingu samhliða vinnunni. Lýsingarhönnun er svo miklu meiri verkfræði og eðlisfræði í rauninni. Hér er frábært fólk sem er reiðubúið til þess að leiðbeina og rýna til gagns sem er mjög mikilvægt.“

Verkefni sem hafa áhrif á lífsgæði fólks

Hjá fyrirtækinu starfa sérhæfðir lýsingarhönnuðir, arkitektar og rafmagnsverkfræðingar með það að markmiði að auka sjónræna upplifun, rýmisvitund og ekki síður lífsgæði fólks.  

„Í dag er ég að vinna að töluvert umfangsmiklum verkefnum sem snúa að götu- og iðnaðarlýsingu og dagsbirtuútreikningum. „Mér finnst það mjög áhugavert og skemmtilegt og á sama tíma er það svolítið mengi innan arkitektúrs sem var ekki lögð mikil áhersla á hér áður fyrr.“ Dagsbirtuútreikningar og lýsing þykja afar mikilvægir þættir er varða heilsu og vellíðan almennt. „Lýsingartækninni hefur farið mjög mikið fram á síðustu árum og ég trúi því að í framtíðinni verði dagsbirtuútreikningar færðir framar í hönnunarferlið en rannsóknir hafa sýnt fram á mikilvægi dagsbirtu á lífsgæði fólks og sem hluti af heilnæmu umhverfi.“ 

Til viðbótar nefnir Jónína umfangsmikið verkefni sem hún kom að tengdu Carbfix, en þar eru unnið að því að dæla koltvísýring djúpt í jörðu þar sem hann steingerist. 

Í því lýsingarverkefni þarf til að mynda að notast við sérstaka lampa sem fylgja ákveðnum kröfum vegna sprengjuhættu þar sem rýmið getur verið mettað af gasi og því mikilvægt koma í veg fyrir hverskonar neistamyndun. Það er einmitt þessi tæknilega hlið sem mér finnst svo heillandi við verkefnin. Þau eru krefjandi og spennandi á sama tíma og ég öðlast meira öryggi með hverju verkefninu sem líður.

Vinnustaður sem heldur þétt utan um fólkið

Aðspurð segir Jónína starfsumhverfið vera með besta móti og segist hún finna sterkt fyrir því hversu mikilvægur mannlegi þátturinn er hjá fyrirtækinu. „Okkur er sýnt mikið traust, vinnustaðurinn er lifandi, viðmótið gott og sveigjanleikinn mikill. Þegar ég byrjaði þá tók ég strax eftir því hvað fyrirtækið heldur vel utan um gildin sín og stendur undir þeim. Ég er spennt að kynnast nýju samstarfsfólki og samnýta þessu miklu breidd í sérfræðiþekkingu fólksins.“